Python fyrir byrjendur

Inngangur að forritun



Kennsluefni eftir Valborgu Sturludóttur

Kennslubók


Þessi bók fjallar um þau undirstöðuatriði sem þarf að kynna til að ná tökum á forritun í Python. Höfundi finnst mikilvægt að kenna námsefnið með íslenskum hugtökum þar sem ætlunin er að nota hana í kennslu í íslenskum framhaldsskólum. Ef nemendur ætla að leggja fyrir sig tölvunarfræði í framhaldsnámi er nauðsynlegt að búa yfir ríkulegu íðorðasafni, sérstaklega ef nemandi hyggst framfleyta fræðunum. Hugtök eru þó líka sett fram á ensku ef lesandi vill fletta upp ítarefni sem meira er til af á netinu á ensku en íslensku.

Við keyrslu á kóða þarf einnig að hafa í huga að tölvan gerir nákvæmlega það sem við segjum henni að gera og ekkert annað. Og þá komum við niður á stórt vandamál, að tölvur eru mjög bókstaflegar og vitlausar. Þær skortir allt vit, þær reyna ekki að hafa vit fyrir okkur. Þær gera nákvæmlega það sem við biðjum um. Nákvæmlega eins og við biðjum um það.

Bæði getur bókin verið ítarefni til að styðja við annað námsefni og verkefnabók fyrir nemendur að tileinka sér forritun upp á eigin spýtur. Forritun er skemmtileg og getur hjálpað okkur við að leysa hversdagsleg verkefni.

Kennarar sem vilja nýta sér bókina geta fengið Jupyter vinnubækur hjá höfundi til að styðjast við.

Efnið er gefið út undir Creative Commons leyfi 3.0, þér er heimilt að afrita, nota, og vinna áfram með efnið ef þú vísar í upprunann, þú mátt ekki hagnast af kennsluefni þessu.

Fylgigögn


Til þess að nota þessi skjöl skulið þið smella á sækja takkann á því skjali sem þið viljið, vista skjalið sem .ipynb skjal þar sem þið finnið það aftur á skráarsafninu ykkar og nota loks þann hugbúnað sem ykkur hugnast til að opna skjölin. Ég hef oftast notað Anaconda til að keyra Jupyter vinnubækur í vafra en mér finnst líka ágætt að nota Visual Studio Code.

Gagnavinnsla

Þessi vinnubók snýr að því að vinna með gögn, frá notendum og upp úr gagnasafni. Gagnasafnið sem unnið er með er .csv skrá með upplýsingum um dýr. Upplýsingarnar eru geymdar með íslensku talnakerfi sem þarf að snúa yfir í talnakerfi sem Python skilur. Þetta vandamál er þekkt og er mikilvægt að sýna nemendum að gagnavinnsla felur í sér heilmikla vinnu við að laga gögn til. Svo þegar það er búið er næsta verkefni að teikna upp gögnin þannig að hægt sé að draga ályktanir. Matplotlib er notað en ekki er gert ráð fyrir að flóknari gröf en stöplarit séu notuð.

Föll og útreikningar

Þessi vinnubók æfir notkun á föllum og styrkir vonandi í leiðinni skilning á útreikningi vaxtareiknings, vaxtavaxta og lánaafborgana. Útreikningurinn er frekar flókinn en engin krafa er hér á að útfæra föll heldur að skilja hvernig á að beita þeim. Þessi vinnubók þjálfar einnig notkun klasa, hvetur til prófana og að meta hvaða úttak ætti að koma miðað við inntak. Ekki láta flókna útreikninga letja ykkur, þessi vinunubók er alveg meinlaus og mjög þægileg. Eina krafan er að prófa inntak. Í kjölfarið má svo fara að búa til viðmót til að taka við inntaki frá notanda eða að nota gögn frá heimasíðum banka til að gera samanburði, en það er seinni tíma verkefni.

Hengiman

Síðasta vinnubókin leiðir lesandann í gegnum ferlið við að búa til einfaldan tölvuleik, hvaða ákvarðanir þarf að taka og hvaða gagnagrindur þar að nota, hvernig á að geyma gögn og nota þau. Það fer eftir reglum þess sem útfærir hvernig útfærslan endar en þar sem þetta verkefni er bæði mjög afmarkað og opið á sama tíma er þetta mest krefjandi vinnubókin. Hér þarf að nota föll, lykkjur, skilyrði, jafnvel klasa ef útfærlsan var hugsuð þannig ásamt gögnum og gagnavinnslu. Hér er því verið að sameina úr báðum hinum bókunum og búa til flóknara verkefni. Tölvuleikjagerð er yfirleitt það flóknasta sem hægt er að taka sér fyrir hendur því þar þarf í svo ótal mörg horn að líta.

Taka þátt


Verkefnið er opið eins og hugbúnaður ætti að vera

Bókin var gerð með hjálp útgáfustjórnunarkerfisins Github. Bókin er hýst þar og hún er öllum aðgengileg. Ég get áfram unnið að umbótum og gefið hana saumlaust út, eins lengi og það er góð hugmynd. Áhugi minn á að viðhalda henni fær því að ráða ferðinni. Ef þú sérð eitthvað athugavert eða finnst góð hugmynd að bæta einhverju við efnið getur þú sent mér pull request á github, ég fer yfir hana og set viðbótina inn í efnið eða hendi henni. Ef þú hefur sent mér margar góðar ábendingar og viðbætur geri ég þig að meðeiganda bókarinnar svo þú getir gert breytingar án minnar afskiptasemi. Hér er sú síða. Þar er einnig að finna eitt og annað sniðugt sem ég hef hent saman.

Hafa samband


  Valborg Sturludóttir

  valborg hjá tutamail.com